Fara á efnissvæði
Mínar síður
Fréttayfirlit

Íslenska lífeyriskerfið í fremstu röð

16. október 2024

Íslenska lífeyriskerfið er metið það næstbesta í heimi í alþjóðlegri lífeyrisvísitölu sem gefin er úr árlega af ráðgjafafyrirtækinu Mercer og samtökunum CFA Institute. Þetta er í fjórða sinn sem lífeyriskerfið á Íslandi er þátttakandi í mælingunni og hefur íslenska kerfið alltaf verið metið í fyrsta eða öðru sæti.

Vísitala Mercer nær til lífeyriskerfa 48 ríkja og fékk Ísland A-einkunn ásamt Hollandi, Danmörku og Ísrael. A-einkunn gefur til kynna, samkvæmt mati Mercer, „fyrsta flokks og öflugt lífeyriskerfi sem tryggir góð réttindi, er sjálfbært og sem traust ríkir um.“

Lífeyrisvísitalan metur heildarlífeyriskerfi landanna út frá þremur meginþáttum; sjálfbærni, nægjanleika og trausti og var Ísland með A einkunn í öllum þremur meginflokkum. Heildarvísitala Íslands lækkar lítillega milli ára, fer úr 83,5 í 83,4 stig, en farið er yfir þróun helstu undirvísitala á vef Landssamtaka lífeyrissjóða.