Hrein raunávöxtun LSR 8,9% á árinu 2014
13. apríl 2015
Ávöxtun eigna LSR á árinu 2014 var mjög góð. Nafnávöxtun sjóðsins var 10,1% sem svarar til 8,9% hreinnar raunávöxtunar. Meðaltal hreinnar raunávöxtunar LSR síðustu fimm árin var 5,7%. Tekjur af fjárfestingarstarfsemi á árinu 2014 voru 49,5 milljarðar króna og heildareignir LSR voru 535,5 milljarðar króna í árslok 2014.
Undanfarin þrjú ár hafa eignir LSR aukist um 156 milljarða króna. Það má að stærstum hluta rekja til ávöxtunar sjóðsins því á sama tíma hafa tekjur af fjárfestingum numið 150,1 milljarði króna.
Góð eignadreifing er í verðbréfasafni LSR. Í árslok 2014 voru 52% af eignum sjóðsins í skuldabréfum, þar af 32,5% í skuldabréfum með ríkisábyrgð, 12,1% í innlendum hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum, 31,2% í erlendum hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum og 4,6% í innlánum.
Ávöxtun innlendra og erlendra hlutabréfa var góð á árinu. Nafnávöxtun innlendra hlutabréfa og hlutdeildarskírteina var 12,4% á árinu sem jafngildir 11,3% raunávöxtun. Nafnávöxtun erlendra hlutabréfa og hlutdeildarskírteina var 15,6% á árinu sem jafngildir 14,4% raunávöxtun.
Á árinu 2014 fengu 18.542 sjóðfélagar eða makar þeirra lífeyrisgreiðslur frá sjóðnum, samtals 32,9 milljarða króna. Að meðaltali greiddu 29.569 sjóðfélagar iðgjald til sjóðsins á árinu, samtals að fjárhæð 22,9 milljarðar króna.