Hrein eign LSR 1.293 milljarðar í árslok 2022
26. apríl 2023
Hrein eign Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins var 1.293 milljarðar króna í árslok 2022. Hrein raunávöxtun sjóðsins var -12,9% á árinu, en þrátt fyrir afar krefjandi ár á fjármálamörkuðum er langtímaávöxtun sjóðsins góð. Raunávöxtun síðustu 5 ára er 4,3% að meðaltali og sé horft til síðustu 10 ára er meðaltal raunávöxtunar 4,9%.
Virkum sjóðfélögum fjölgaði um ríflega 500 frá fyrra ári og var meðalfjöldi þeirra 30.590. Lífeyrisþegum fjölgaði einnig, og var meðalfjöldi þeirra 24.244 á síðasta ári samanborið við 23.408 árið á undan. Lífeyrisgreiðslur árið 2022 voru rúmlega 83 milljarðar kr.
Þetta er meðal niðurstaðna ársreiknings LSR fyrir árið 2022, en stjórn sjóðsins undirritaði hann á fundi sínum þann 19. apríl. Þar kemur jafnframt fram að hrein raunávöxtun A-deildar LSR var -12,1%, B-deildar -15,9% og hjá Séreign var hrein raunávöxtun Leiðar I -18,3%, Leiðar II -15,6% og 0,0% hjá Leið III, sem er innlánsleið. Tryggingafræðileg staða A-deildar lækkar úr -2,7% í -5,8% milli ára.
Krefjandi ár á markaði
Töluverðar lækkanir á bæði hlutabréfa- og skuldabréfamörkuðum hér heima og erlendis á árinu leiddu til þess að eignasafn LSR minnkaði um 53 milljarða kr. frá fyrra ári. Engu að síður hefur eignasafn sjóðsins vaxið hratt þegar litið er til lengri tíma og má sem dæmi nefna að frá lokum árs 2017 hefur vöxturinn verið um 467 milljarðar kr. Á því tímabili námu hreinar fjárfestingartekjur sjóðsins um 461 milljarði kr. og því hefur eignaaukningin svo til öll verið vegna fjárfestingartekna.
Eignasafn sjóðsins í árslok skiptist þannig að eign í skuldabréfum var 565,7 milljarðar kr., eign í hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum var 672,7 milljarðar kr. og innlán námu 53,9 milljörðum kr. Hlutfall eigna í erlendri mynt var tæplega 41% og hlutfall verðtryggðra eigna var um 34,3% af eignasafni sjóðsins í árslok 2022.