Eignasöfn LSR metin út frá UFS-þáttum
27. janúar 2023
Mikilvægur liður í fjárfestingarstarfi LSR er að tryggja að sjóðurinn sé ábyrgur langtímafjárfestir. Fjárfestingar sjóðsins eru metnar út frá svokölluðum UFS-þáttum (umhverfisþættir, félagsþættir og stjórnarhættir) og er hægt að finna upplýsingar um UFS-mat bæði innlendra og erlendra fjárfestinga hér á vefnum.
Mat á innlendu eignasafni sjóðsins á árinu 2022 sýnir að stærsti hluti eignasafnsins fellur í flokk A (Framúrskarandi) eða B (Gott). Á skalanum 0-100 er heildareinkunn safnsins 79 af 100 mögulegum. Það er fyrirtækið Reitun hf. sem sér um UFS-mat á fjárfestingum LSR. Hér má finna nánari upplýsingar um UFS-mat innlendra eigna LSR.
Hvað erlendar eignir varðar fjárfestir LSR í gegnum verðbréfa- og fjárfestingarsjóði. UFS-mat erlends eignasafns byggir því á einkunnagjöf sem hver sjóður hefur hlotið. UFS-mat á erlendu eignasafni fyrir árið 2022 sýnir að allir sjóðir sem LSR fjárfestir fá á bilinu 3 til 5 í einkunn af 5 mögulegum. Svokölluð „UFS-áhætta“ erlenda eignasafnsins er 19,6 af 50 mögulegum, þar sem 0 telst lítil áhætta en 50 mikil. Það er fyrirtækið Morningstar sem sér um UFS-mat á erlendu eignasafni LSR. Hér má finna nánari upplýsingar um UFS-mat erlendra eigna LSR.