Breytingar á réttindum A-deildar vegna hækkandi lífaldurs
31. maí 2023
Þann 1. júlí næstkomandi verður ráðist í síðari hluta aðgerða LSR til að bregðast við hækkandi lífaldri íslensku þjóðarinnar. Þá verður réttindum fyrir greidd iðgjöld til og með 31.12.2022 breytt í samræmi við væntan lífaldur sjóðfélaga.
Fjármála- og efnahagsráðuneytið gaf út nýjar lífslíkutöflur í árslok 2021 sem byggðu á nýrri aðferðafræði. Með henni er gert ráð fyrir að Íslendingar lifi töluvert lengur en áður hafði verið talið og yngri kynslóðir muni lifa lengur en eldri kynslóðir.
Lífeyrissjóðir þurftu að bregðast við þessu og gera ráð fyrir að greiða sjóðfélögum lífeyri í lengri tíma en áður hafði verið reiknað með. Viðbrögð LSR eru í tveimur skrefum. Í því fyrra var ávinnsluviðmiðum fyrir iðgjaldagreiðslur frá 1. janúar 2023 breytt í samræmi við fjölgun eftirlaunaára, en áður hefur verið fjallað um þá aðgerð, m.a. á sjóðfélagafundi sem haldinn var í febrúar 2023.
Síðara skrefið mun koma til framkvæmda þann 1. júlí næstkomandi, en með því verður réttindum fyrir greidd iðgjöld til og með 31.12.2022 breytt í samræmi við væntan lífaldur sjóðfélaga. Breytingarnar eru mismiklar eftir aldri, en að meðaltali leiða þær til þess að vænt mánaðarleg réttindi þeirra sem nú greiða til sjóðsins lækka um 9,9%.
Lækkun lífeyrisgreiðslna
Hjá þeim sjóðfélögum sem þiggja lífeyri hjá sjóðnum og eru ekki með bakábyrgð ríkissjóðs lækka greiðslurnar um 4,1% frá og með 1. júlí næstkomandi. Þessir sjóðfélagar fengu skilaboð um lækkunina í gegnum Ísland.is í lok maí. Sjóðfélagar sem fá lífeyri greiddan fyrirfram munu því fá fyrstu greiðslu með lægri upphæð þann 1. júlí n.k., en þeir sem fá lífeyri greiddan eftir á munu fá fyrstu greiðslu með lækkun 31. júlí.
Lækkun réttinda og lífeyrisgreiðslna er þungbær aðgerð fyrir sjóðinn, en er engu að síður nauðsynleg í ljósi þeirrar stöðu sem upp var komin.