Ábyrgar fjárfestingar
LSR hefur mikilvægu hlutverki og skyldum að gegna sem ábyrgur fjárfestir. Sjóðnum ber að tileinka sér ábyrga starfshætti og leggja áherslu á vönduð vinnubrögð, fagmennsku og frumkvæði.
LSR er langtímafjárfestir sem leitast við að ná góðri ávöxtun en er jafnframt ábyrgur hluthafi og stuðlar að framþróun starfshátta á verðbréfamarkaði. Sjóðurinn gerir kröfu til þess að fyrirtæki sem hann fjárfestir í starfi í samræmi við samfélagsleg gildi, viðurkenndar leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja og sýni ábyrgð í umhverfismálum.
LSR hefur sett sér sjálfbærnistefnu sem segir til um hvernig ábyrgum fjárfestingum skuli háttað hjá LSR, hver grunnviðmiðin séu og hvaða aðferðafræði sé stuðst við. Hér má finna sjálfbærnistefnu LSR. Eignasöfn LSR eru metin út frá UFS-þáttum og má hér sjá umfjöllun um UFS einkunnir innlendra og erlendra eigna sjóðsins:
Sjálfbærnistefna LSR
- Nær til innri starfsemi og fjárfestinga sjóðsins
- Umhverfisþættir, félagsþættir og stjórnarhættir
Eigendastefna
Eigendastefna LSR gildir um allar fjárfestingar sjóðsins og er henni ætlað að tryggja samfellu í beitingu hluthafaréttinda. Í stefnunni er fjallað um LSR sem fjárfesti, hvernig hluthafaréttindum sjóðsins er beitt og til hvaða meginsjónarmiða er litið varðandi stjórnarhætti útgefenda. Stefnan tekur til allra eignaflokka, svo sem skráðra hlutabréfa, skuldabréfa og hlutdeildarskírteina sjóða. Framkvæmd stefnunnar tekur mið af hagsmunamati hverrar deildar og kann sjóðurinn því að beita sér með ólíkum hætti eftir atvikum og aðstæðum. Hér má finna eigendastefnu LSR.
UN PRI - viðmið SÞ um ábyrgar fjárfestingar
LSR skrifaði undir viðmið Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar (e. UN PRI) og þar með hefur sjóðurinn skuldbundið sig til að horfa til umhverfislegra þátta, félagslegra þátta og stjórnarhátta (UFS) við mat og ákvarðanir á fjárfestingum. Principles for Responsible Investment eru alþjóðleg samtök fjárfesta sem vinna saman að því að innleiða tiltekin grundvallarviðmið um ábyrgar fjárfestingar og njóta til þess stuðnings Sameinuðu þjóðanna.
Sex meginreglur PRI eru eftirfarandi:
- Við munum taka mið af umhverfislegum og félagslegum þáttum og stjórnarháttum (UFS) við greiningu fjárfestingarkosta og við ákvörðunartöku
- Við ætlum að vera virkur eigandi sem tekur tillit til UFS bæði í eigendastefnum og í verki
- Við munum kalla eftir viðeigandi upplýsingagjöf um UFS frá aðilum sem við fjárfestum í
- Við munum beita okkur fyrir viðurkenningu á og innleiðingu þessara meginreglna í fjárfestingarstarfsemi
- Við munum vinna saman að því að efla árangur við innleiðingu meginreglnanna
- Við skilum öll skýrslum um starfsemi okkar og upplýsum um árangur við innleiðingu meginreglnanna
CIC - fjárfestingar í umhverfisvænum lausnum
LSR var einn þrettán íslenskra lífeyrissjóða sem skrifaði undir viljayfirlýsingu á vegum CIC – Climate Investment Coalition – en tilgangur þeirra samtaka er að stuðla að auknum fjárfestingum í hreinum orkugjöfum og umhverfisvænum lausnum. Með þátttöku sinni skuldbindur LSR sig til fjárfestinga í hreinum orkugjöfum til ársins 2030 og leggur þannig sitt á vogarskálarnar til að markmiðum Parísarsáttmálans verði náð. Því má gera ráð fyrir aukningu í þeim fjárfestingum sem flokkast undir sjálfbærar og ábyrgar fjárfestingar, þar með talið fjárfestingum í hreinum orkugjöfum á komandi árum.
IcelandSIF
LSR er meðal stofnaðila samtakanna IcelandSIF – Iceland Sustainable Investment Forum. Tilgangur þeirra er að efla þekkingu fjárfesta á aðferðafræði sjálfbærra og ábyrgra fjárfestinga og auka umræðu um ábyrgar og sjálfbærar fjárfestingar.
Festa
LSR er aðili að Festu — miðstöð um sjálfbærni. Festa starfar með það markmið að auka þekkingu á sjálfbærni fyrirtækja, stofnana og annarra auk þess að hvetja til samstarfs og aðgerða á því sviði. Með því að tengja saman ólíka aðila á borð við fyrirtæki, sveitarfélög, stofnanir og einstaklinga liðkar félagið fyrir samstarfi og aðgerðum sem auka sjálfbærni í samfélaginu.
UN PRI
Allir rekstraraðilar erlendra fjárfestinga hjá LSR eru aðilar að UN PRI, en þær ná til um 44% eigna LSR í árslok 2023.
UFS-skuldabréf
Í árslok 2023 námu græn og félagsleg skuldabréf í safni LSR u.þ.b. 30 mö.kr.
CIC
LSR hefur sett sér markmið að fjárfesta fyrir um 100 ma.kr. í verkefnum sem tengjast hreinni orku og öðrum umhverfisvænum lausnum fram til ársins 2030.