Erlent eignasafn LSR
UFS-áhættumat
Fjárfestingar LSR á erlendum mörkuðum eru í gegnum verðbréfa- og fjárfestingarsjóði. Það þýðir að LSR er ekki beinn fjárfestir í félögum heldur fjárfestir í sjóðum sem aftur fjárfesta í hlutabréfum og skuldabréfum á heimsvísu. Mat á umhverfis-, félagsþáttum og stjórnarháttum (UFS-þáttum) fyrir erlent eignasafn er því byggt á einkunnagjöf hvers sjóðs sem fjárfest er í. Sjóðirnir sjálfir hafa markað sér UFS-viðmið og eru misjafnir, allt frá því að vera vísitölusjóðir með væg UFS-markmið yfir í sjóði sem gætu flokkast undir það að vera áhrifafjárfestar með skýr og öflug UFS-markmið.
Einkunnagjöf- Morningstar
Við UFS-mat á erlendu eignasafni er stuðst við áhættumat frá Morningstar. Slíku mati er úthlutað öllum skráðum verðbréfasjóðum sem eru með mælanlegan áhættustýringarramma utan um meirihluta eigna í eignasafni hvers sjóðs. Morningstar notast við skalann 1 – 5, þar sem 5 er besta einkunn við mat á UFS-áhættumati sjóða.
Einkunn | Skýring | |
5: Hátt | 🌐︎🌐︎🌐︎🌐︎🌐︎ | Framúrskarandi stjórnun hvað varðar UFS-þætti |
4: Yfir meðallagi | 🌐︎🌐︎🌐︎🌐︎ | Góð stjórnun hvað varðar UFS-þætti |
3: Í meðallagi | 🌐︎🌐︎🌐︎ | Í meðallagi góð stjórnun hvað varðar UFS-þætti |
2: Undir meðallagi | 🌐︎🌐︎ | Slök stjórnun hvað varðar UFS-þætti |
1: Lágt | 🌐︎ | Ekki fullnægjandi stjórnun hvað varðar UFS-þætti |
UFS-einkunn erlendra sjóða í eigu LSR
Hvort sjóður fái einn hnött eða fimm ræðst af heildareinkunn UFS-áhættumats. Stigagjöf fyrir heildareinkunn er á skalanum 0-50. Ef sjóður fær fimm hnetti í einkunn er stigagjöf lág, en það gefur til kynna að UFS-áhætta sjóðsins sé undir góðri stjórn og er þar af leiðandi lítil. Það öfuga gerist þegar sjóður fær einn hnött í einkunn en þá er stigagjöf há, UFS-áhætta ekki undir góðri stjórn og þar af leiðandi mikil áhætta.
Hvað er UFS-áhætta?
UFS-áhætta er áhætta sem tengist umhverfismálum, félagsþáttum og stjórnarháttum. Til þess að meta UFS-áhættu er notaður svokallaður áhættustýringarrammi, en slíkur rammi metur umfang mikilvægrar UFS-áhættu sem áhættustýring fyrirtækis nær ekki til.
Ef áhætta fellur út fyrir áhættustýringarrammann hefur viðkomandi fyrirtæki ekki gott utanumhald á UFS-áhættu sem leiðir til hærra áhættumats.
- Umhverfisáhætta: t.d. loftslagsbreytingar, græn orkuskipti og umhverfisreglur
- Félagsleg áhætta: t.d. fólk, vinnuafl, aðfangakeðjur, viðskiptavinir og samfélag
- Stjórnaráhætta: t.d. viðskiptasiðferði og stjórnun
SFDR-flokkun
SFDR-reglugerðinni (Sustainable Finance Disclosure Regulation) er ætlað að tryggja samræmdar upplýsingar um hvernig aðilar á fjármálamarkaði meta áhættu tengda sjálfbærni og hvernig taka eigi tillit til helstu neikvæðra áhrifa sjálfbærniþátta við fjárfestingarákvarðanir. Markmið reglugerðarinnar er að auka gagnsæi fyrir fjárfesta og draga úr ósamræmi í upplýsingagjöf.
Fjárfestingar í sjóðum skal flokka í eftirfarandi þrjá flokka eftir áherslu á sjálfbærni:
Grein 9
Sjóðir sem hafa sjálfbær fjárfestingarmarkmið að leiðarljósi
Grein 8
Sjóðir sem fjárfesta í umhverfis- og samfélagshvetjandi fjármálagerningum
Grein 6
Sjóðir sem samþætta enga sjálfbærni inn í fjárfestingarferli